Gullsmíði & skartgripahönnun, HA vefgrein
Leave a comment

SEB

Smíði í skala

Edda Bergsteinsdóttir gullsmiður er ein þeirra sem hlaut styrk úr Hönnunarsjóði í ár. Styrkinn fékk hún til frekari markaðsetningar á SEB Jewellery, sem er yfirheiti á skartgripalínum hennar, þar sem geómetrísk form lifna við og taka á sig form dýra. HA fékk að forvitnast um hönnuðinn og hugmyndafræðina að baki skartgripalínum hennar.

 

Hvað réði því að þú ákvaðst að læra gullsmíði?

Mér hefur alltaf fundist gaman að teikna og búa til hluti og ef ég hefði ekki orðið gullsmiður þá er alveg á hreinu að ég hefði samt sem áður fengist við einhvers konar sköpun. Það að búa til eitthvað alveg frá grunni er ótrúlega góð tilfinning og í gullsmíðinni fæ ég þeirri þörf fullnægt. Þar get ég byggt upp mín eigin form og línur og séð til þess að hluturinn sem ég er að skapa gangi upp frá öllum sjónarhornum.

Þú lærðir arkitektúr um tíma áður en þú fórst í gullsmíði. Hvernig var að stökkva á milli svo ólíkra stærðarskala, úr hinu stóra og efnismikla yfir í hið smáa og fíngerða?

Þegar ég var að læra arkitektúr fann ég að ég vildi vinna með minni skala. Fyrir mér er frelsi fólgið í því að geta haldið utan um hlutinn sem ég er að búa til í hlutfallinu einn á móti einum. Að öðru leyti var stökkið ekki stórt. Ég heyrði einhvern tímann að það að teikna væri að sjá en mér finnst það mjög lýsandi fyrir tenginguna sem er á milli þessara tveggja stærðarskala. Skissubókin mín breyttist ekkert við það að skipta á milli náms í arkitektúr og gullsmíði. Ég hélt áfram að safna hugmyndum og virða fyrir mér form í náttúrunni og hlutunum í umhverfinu.

 

Þú vinnur með geómetrísk form sem skoða má út frá sjónarhorni arkitektúrs. Hefur arkitektúr haft mikil áhrif á þig sem gullsmið og finnur þú tengingu milli þessa tveggja ólíku sviða?

Ef til vill gætir áhrifa frá arkitektúr í skartgripunum mínum en í þeim er sterkur geómetrískur strúktúr. Fólkið í kringum mig og umhverfið sem ég hrærist í hefur áhrif á mig sem gullsmið og í umhverfinu okkar er fullt af arkitektúr þannig að óneitanlega hefur það áhrif á mig. Byggingarlist og gullsmíði eru tvö ævaforn fög sem bæði byggja á sterkum hefðum og þau eiga það sameiginlegt, þrátt fyrir ólíka stærðarskala, að tengjast líkama manneskjunnar. Við mælum allt út frá líkamanum. Þegar ég teikna skartgrip hugsa ég hann út frá líkamanum og hvernig hann komi til með að falla að honum. Það sama gerir arkitektinn þegar hann teiknar byggingu utan um manneskjur.

 

Línan þín er í raun tvískipt; annars vegar SEB Animals þar sem formin taka á sig form dýra eins og katta og hrúta og hins vegar SEB Fly þar sem þú vinnur með form sem vísa í flugur. Hvernig kom það til að þú fórst að vinna með þessi viðfangsefni?

Sonur minn elskar kisur og það varð kveikjan að fyrsta kisuhálsmeninu sem ég smíðaði þegar ég var enn í námi. Kisa teiknaði ég seinna upp í þrívídd og í dag tilheyrir hann dýrunum fimm í SEB Animals línunni sem jafnframt er fyrsta skartgripalínan mín. Ég get lofað því að ég hefði aldrei smíðað kisuhálsmen ef ég ætti ekki börn. Þau gefa mér mikinn innblástur.

Nýja línan mín, SEB Fly, er innblásin af vængjum og er alls ekki einskorðuð við flugur þó þær hafi komið við sögu í hugmyndaferlinu. Formin í Fly eru abstrakt en línan er óbeint framhald af SEB Animals sem samanstendur af fimm geómetrískum höfðum húsdýra. Báðar línurnar búa yfir einfaldleika og kraftmiklum strúktúr. Persónulega finnst mér töffaralegt yfirbragð á skartgripunum mínum. Þar er engin væmni, bara hrá abstrakt geómetría.

Ljósmyndirnar fyrir SEB Fly þóttu vel heppnaðar og hlutu töluverða athygli. Geturðu sagt okkur frá myndatökunni og samstarfi þínu við Írisi Stefánsdóttur ljósmyndara?

Á menningarnótt 2016 opnuðum við Íris Stefánsdóttir ljósmyndari sýninguna Night in GK Reykjavík. Á sýningunni frumsýndi ég nýju skartgripalínuna, SEB Fly, og Íris sýndi ljósmyndir af skartgripunum. Við vorum sammála um að fara ekki þessa hefðbundnu leið við val á módeli fyrir SEB Fly. Við vildum að abstrakteiginleikar skartgripanna skiluðu sér vel á ljósmyndunum og með því að velja hörundsdökkt módel náðum við fram kraftmiklum andstæðum í birtu og skugga. Ég var svo heppin að rekast á Theresu Mba á förnum vegi aðeins tveimur vikum fyrir opnun sýningarinnar. Við Íris vorum þá orðnar nokkuð vissar um, eftir mikla leit, að við myndum ekki finna rétta módelið fyrir sýninguna, því það er ekki auðvelt að finna hörundsdökkt módel hér á landi.

Ég vildi leggja mikið í umgjörðina í kringum SEB Jewellery og Íris á stóran þátt í því hversu vel tókst til. Fyrir mér er ekki nóg að búa til skartgripi, ég vil skapa heim utan um þá sem vekur upp tilfinningar hjá fólki sem það síðan tengir við skartgripina. Þetta þarf allt að hanga saman.

 

Hvað er fram undan hjá þér? Má búast við annarri línu í þessum dúr?

Markaðurinn virðist hafa verið tilbúinn fyrir SEB Jewellery því viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Í lok febrúar mun ég kynna SEB Jewellery á skartgripasýningunni Inhorgenta í München í Þýskalandi. Þetta er risastór sýning, ein sú stærsta í skartgripabransanum í Evrópu, og það verður spennandi að sjá hvaða tækifæri leynast þar. Ég tel mig lánsama að hlakka til framtíðarinnar og hafa ástríðu fyrir því sem ég er að fást við.

Á teikniborðinu eru viðbætur við SEB línurnar en sú sem er komin lengst er innblásin af fuglum og myrkri. Formin munu verða áfram í þessum abstrakt dúr en stefnan er að frumsýna línuna næsta sumar.


Ljósmyndir: Íris Stefánsdóttir. Umsjón: Arnar Fells Gunnarsson.

Skildu eftir svar