Álit / pistlar, Landslagsarkitektúr
Leave a comment

Nú vandast leikurinn

Einkenni góðra leiksvæða

Þörf fyrir fjölbreytt og vönduð leiksvæði er brýn í borg sem þéttist hratt. Landslagsarkitektarnir Aðalheiður E. Kristjánsdóttir og Svava Þorleifsdóttir skoða hvað einkennir góð leiksvæði.


Texti: Aðalheiður E. Kristjánsdóttir og Svava Þorleifsdóttir. Forsíðumynd: Eva Lind

Skólinn og nánasta umhverfi hans er vinnustaður barnanna okkar allt frá tveggja ára aldri en börn dvelja í skólum og leikskólum í sex til átta klukkustundir á hverjum degi. Það er því mikilvægt að skóla- og leikskólalóðir séu hannaðar með þarfir þeirra í huga. Leiksvæði þurfa að vera hönnuð með það að markmiði að börn fái útrás fyrir leik, sköpunarkraft og hreyfiþörf og að þau hvetji til útiveru og leikja því almennt er talið æskilegt að öll börn stundi miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í minnst 60 mínútur daglega. Góð leiksvæði örva ímyndunarafl barna og eru hreyfihvetjandi vettvangur, bæði fyrir skipulagðan og sjálfsprottinn leik. Mikilvægi hreyfingar og útiveru í daglegu lífi barna er augljóst enda læra þau í gegnum leik. Rannsóknir hafa sýnt að útivera hefur ótvíræð jákvæð áhrif á einbeitingu, nám og félagsleg samskipti barna. Því er mikilvægt að standa vörð um leiksvæði borgarinnar og sjá til þess að þau séu áhugaverð og skemmtileg.

Almenn leiksvæði, þar með talin skóla- og leikskólalóðir, eru mikilvægur hluti af grænu svæðunum í borginni. Leiksvæðin þurfa að vera örugg en líka vönduð, þau verða að vekja áhuga bæði barna og fullorðinna. Forðast þarf einsleitni og mikilvægt er að draga fram sérkenni hvers svæðis fyrir sig með áherslu á fjölbreytta leikmöguleika. Þróunin hér á landi og í nágrannalöndunum hefur verið sú að heildarhugsun og umgjörð skiptir meira máli við hönnun leiksvæða en leiktækin sjálf. Í því samhengi leika landslagsarkitektar lykilhlutverk en þeir þurfa að lesa staðhætti og skapa umgjörð fyrir rýmin svo úr verði góð leik- og dvalarsvæði.

Processed with VSCO with a8 preset

Mynd: Eva Lind

Borg í mótun – framtíð leiksvæðanna

Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar í skipulagi Reykjavíkurborgar. Áhersla hefur verið lögð á þéttingu byggðar í eldri hverfum og byggingarframkvæmdir í úthverfum hafa dregist verulega saman. Leiksvæði miðsvæðis eru fá og því þarf að gera ráð fyrir endurbótum á núverandi leiksvæðum og jafnvel bæta við nýjum vegna vaxandi íbúafjölda við þéttingu byggðar.

Borgarstjóri Reykjavíkur skipaði stýrihóp um leiksvæðastefnu árið 2010. Með stýrihópnum starfar þverfaglegt teymi sérfræðinga sem vinna leiksvæðastefnu fyrir Reykjavík með það að leiðarljósi að leikumhverfi borgarinnar uppfylli þarfir og óskir barna. Meðal helstu þátta verkefnisins er að móta áherslur til framtíðar um hlutverk og uppbyggingu ólíkra tegunda leiksvæða borgarinnar. Kortleggja á leiksvæðin og skoða hvort núverandi svæði fullnægi þörfum barna um örvandi leikumhverfi. Í Reykjavík eru 256 opin leiksvæði og þar að auki eru 85 skóla- og leikskólalóðir sem eru nýttar sem leiksvæði eftir lokun á virkum dögum og um helgar. Stefna borgarinnar er að fækka hefðbundnum leiksvæðum og efla þau sem eftir standa með faglegri aðkomu við endurhönnun og viðhald.

3M6A9095

Mynd: Eva Lind

Fleiri vönduð og stærri svæði í stað margra lítilla svæða er áhugaverður kostur. Stærri svæði bjóða upp á meiri fjölbreytileika í hönnun og útfærslu, og hafa meira aðdráttarafl en lítil svæði með einni rólu og gormatæki eins og svo algengt var fyrir um 20–30 árum og sést enn víða. Þegar byggja á upp til framtíðar er mikilvægt að ákveðin stefnumótun eigi sér stað í upphafi skipulagsvinnunnar þar sem tryggt er að leiksvæði og leikskólalóðir fái sitt pláss. Víða erlendis má finna dæmi um að leiksvæði leikskólabarna hafi minnkað verulega vegna þéttingar byggðar sem síðan leiðir af sér aukið álag á önnur opin svæði. Við þéttingu byggðar þarf að hafa í huga að ný byggð hafi ekki neikvæð áhrif á opin svæði  og leikskólalóðir t.d með skuggamyndun, huga þarf sérstaklega vel að þessum þætti því hér er sól lágt á lofti stóran hluta ársins. Minni lóðir eru áhyggjuefni þar sem bein tengsl eru á milli hreyfingar og stærðar lóða. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem dvelja á stórum leikskólalóðum hreyfa sig allt að 20% meira en börn á minni lóðum þar sem þau ferðast meira fram og til baka innan lóðarinnarauk þess sem minni hætta er á félagslegum árekstrum milli barna sem dvelja á stórum lóðum.

Til þess að leiksvæði þjóni hlutverki sínu er mikilvægt að huga vel að staðsetningu sem og góðri aðkomu og tengingu við almennar gönguleiðir. Þó að gert sé ráð fyrir leiksvæðum innan lóða fjölbýlishúsa er það því miður staðreynd að hér á landi er enn lítil áhersla lögð á þessi svæði og þau eru oft látin sitja á hakanum.

13 x 18 cm. (2)

Mynd: Aðalheiður Kristjánsdóttir

Hönnun fyrir börn

Hönnun leik- og skólalóða getur verið flókið viðfangsefni fyrir landslagsarkitekta, taka þarf tillit til reglugerða um öryggismál og verða við kröfum um að lágmarka viðhaldskostnað. Þær áherslur hafa í för með sér að náttúruleg efni verða fyrirferðarminni og viðhaldsfrí efni eins og gúmmí og malbik verða fyrir valinu. Góðir hönnuðir líta á aukna öryggiskröfur sem áskorun frekar en vandamál og leggja mikla vinnu í að hanna leiksvæði sem uppfylla öryggisviðmið og eru á sama tíma hreyfi- og leikhvetjandi. Gróður og fjölbreytt náttúrulegt umhverfi á leiksvæðunum er mjög mikilvægur hluti af skipulaginu en því miður virðist hann vera á undanhaldi því kostnaðarsamt er að halda gróðrinum við fyrstu árin. Þeirri þróun þyrfti að snúa við og leggja þess í stað aukna áherslu á að fjölbreyttur gróður myndi umgjörð leiksvæðanna og geri þau þar með aðlaðandi og skapi skjól og rými. Tré og runnar undirstrika árstíðaskipti og laða að fugla og önnur skordýr sem börn hafa gaman af því að rannsaka og fylgjast með.

Þverfaglegt samstarf fagaðila frá skólum, landslagsarkitekta og foreldra er gríðarlega mikilvægt við hönnun skólalóða. Eins skiptir miklu máli að hafa sjónarmið barnanna og athafnir þeirra í leik að leiðarljósi. Með samtali og samstarfi þvert á hópa og ólíkar faggreinar aukast líkurnar á góðri niðurstöðu.

DLD – Dagný Land Design

Þúfnahopp í Hveragerði eftir Dagnýju Bjarnadóttur landslagsarkitekt. Mynd: DLD – Dagný Land Design

Frumleg leiksvæði í Danmörku

Kaupmannahöfn er þekkt fyrir fjölbreytt og frumleg leiksvæði þar hafa þverfagleg teymi oft komið að hönnun svæðanna. Mörg leiksvæði innan borgarinnar eru svokölluð náttúruleiksvæði sem bjóða upp á leik þar sem ímyndunaraflið ræður för. Svæðin þjóna þeim tilgangi að færa börnin nær náttúrunni og hvetja þau til að rannsaka umhverfi sitt,þar er minna um hefðbundin leiktæki eins og vegasölt og rólur. Helle Nebelong er danskur landslagsarkitekt sem hefur hlotið lof fyrir hönnun náttúruleiksvæða og svokallaðra upplifunar- eða skynjunargarða. Leiksvæði Helle eru gjarnan innan almenningsgarða og njóta mikilla vinsælda meðal barna. Í Fælledparken, einum stærsta almenningsgarði Kaupmannahafnar, er til dæmis að finna náttúruleiksvæði hannað af Helle en þar er einnig búið að taka í notkun ný leiksvæði sem hönnuð eru af dönsku landslagsarkitektastofunni GHB a/s og byggja öll á ákveðnum þemum. Nýju leiksvæðin eru í útjaðri garðsins og því fær sjálfur garðurinn að halda sinni upprunalegu mynd nánast óbreyttri þrátt fyrir umfangsmiklar viðbætur. Þemaleiksvæðin hafa verið gríðarlega vinsæl frá því þau voru opnuð og talsvert fleira fólk leggur leið sína í garðinn nú en áður. Nágrannar garðsins hafa einnig lýst yfir mikilli ánægju með viðbæturnar.

hmars_2

Mynd: Bjarni Brynjólfsson, Upplýsingadeild Reykjavíkurborgar

Framtíðarsýn

Samfélagið okkar er í stöðugri þróun. Síðustu áratugi hefur sjónvarps- og tölvunotkun stóraukist á kostnað útiveru og hreyfingar. Það er því mikilvægt að hönnun leiksvæða ýti undir hreyfingu, frjálsan leik og sköpun sem örvar skynjun og upplifun. Góð leiksvæði eru ekki einungis mikilvæg fyrir börn; þau eru einnig samkomustaður fólks sem býr í viðkomandi hverfi.

Við hönnun leiksvæða þarf að hafa fjölbreytileika í huga og nýta staðhætti og kosti hvers svæðis fyrir sig. Leikmöguleikar felast ekki einvörðungu í því að setja upp leiktæki heldur þarf að skapa umhverfi með sem fjölbreyttustum leikmöguleikum. Náttúrulegt efni eins og grjót, vatn og gróður er alltaf aðdráttarafl fyrir börn og þá sérstaklega þau yngstu.   

Mörg leiksvæði á höfuðborgarsvæðinu eru orðin úr sér gengin og þurfa á nýju hlutverki að halda. Lengi vel var litið á  þessi svæði sem aukaatriði og lítið var lagt upp úr gæðum þeirra en í dag gera barnafjölskyldur almennt kröfur um bætta aðstöðu og fagmennsku. Borgaryfirvöld og stjórnarmenn sveitarfélaga ættu að sjá hag sinn í því að setja aukið fé í gerð vandaðra leiksvæða sem gæða hverfin lífi. Vel heppnað leiksvæði er aðdráttarafl bæði fyrir íbúa- og gesti, hefur jákvæð áhrif á allt umhverfið um leið og það getur stuðlað að  bættum félagslegum samskiptum fólks.

Bjarkavellir-Yfirlitsmynd_2

Leikskólinn við Bjarkavelli

Svava Þorleifsdóttir starfar sem landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf.

Aðalheiður E. Kristjánsdóttir er landslagsarkitekt hjá Landmótun og hélt erindi á málþinginu Krakkar fíla leiksvæði, sem haldið var á vegum FÍLA á HönnunarMars síðastliðnum.

 

Skildu eftir svar