Viðtöl, Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Víðáttur Hafsins

Íslenski Sjávarklasinn

Staðalímyndin um gamaldags og karllægan sjávarútveg heldur illa vatni í Sjávarklasanum á Granda. Þar vinna yfir 60 fyrirtæki að því að skapa nýjar víddir í haf-tengdri starfsemi á Íslandi; fyrirtæki sem hanna lausnir fyrir vistvænni sjávarútveg. Í íslenska sjávarklasanum eru tækninýjungar í stöðugri þróun
og fiskafurðum meðal annars breytt í húðvörur og lyf. Hér er sjávarútvegur framtíðarinnar í mótun.


Texti: Arnar Fells Gunnarsson, ljósmyndir: Ragna Margrét

Nýja kynslóðin

Höfuðstöðvar Sjávarklasans eru á viðeigandi stað á Grand-an-um við Reykjavíkurhöfn. Aftan við húsið liggja bátar við bryggju og hinum megin við götuna eru gamlir beitingaskúrar. Þegar inn er komið tekur við allt annar heimur. Eftir endi-langri byggingunni eru skrifstofur og fundarrými stúkuð af með gler-veggjum. Öll smáatriði eru listilega útfærð og um allt má sjá merkingar, húsgögn og íslenska hönnun. Hér er ljóst að hönnun er mikilvægur þáttur í allri starfseminni.

Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri og stofnandi Íslenska sjávarklasans, gengur með okkur um húsið og útskýrir hvernig starfsemin mun leiða íslenskan sjávarútveg inn í framtíðina: „Hér vinnur athafnafólk í haftengdri atvinnustarfsemi. Við lítum ekki á okkur sem rannsóknarmiðstöð; við erum fyrst og fremst viðskiptamiðstöð þar sem sprotafyrirtæki þróa hugmyndir sínar.“

Þór segir það koma mörgum á óvart að í húsinu sé jafnt kynjahlutfall og aldurshópurinn breiður. „Hin rótgróna karllæga ímynd sjávarútvegsins er einfaldlega röng. Við viljum kynna nýja kynslóð í sjávarútveginum og efla nýsköpunina, sem að sumu leyti hefur gleymst. Nýsköpun hefur verið öflug hjá einhverjum fyrirtækjum en það er fullt af ónýttum tækifærum þarna úti. Það kristallast í þeirri staðreynd að í Sjávarklasanum starfa tugir fyrirtækja sem fæstir vita af.“

sjávarklasinn_16

Viðskiptamódelið

Þvert á það sem margir halda er Sjávarklasinn ekki rekinn á styrkjum og aðeins brot af veltu fyrirtækisins kemur frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Leigutekjur, ráðgjöf og fjárfestingar í sjálfum sprotafyrirtækjunum skila mestum tekjum. Sjávarklasinn er einkarekið fyrirtæki sem leigir út aðstöðu til sprotafyrirtækja í haftengdum rekstri og býr til verðmæti með því að tengja saman fyrirtæki og ólíkar greinar.

„Sjávarklasinn er eins konar útungunarstöð eða „spin-off factory“ fyrir fjölda minni fyrirtækja sem starfa undir einu og sama þakinu. Viðskiptamódelið má hugsa eins og deilihagkerfi þar sem fyrirtæki vinna náið saman í litlu samfélagi og samnýta flest; vinnurými, fundarherbergi, tækjabúnað, tækniþekkingu, hönnuði, markaðsfræðinga og margt fleira. Fyrirkomulagið stuðlar að auknum samskiptum milli ólíkra aðilla, hvetur þá til samstarfs og skapar skemmtilega vídd,“ segir Þór og útskýrir að það sé mjög verðmætt fyrir minni fyrirtæki að komast inn í slíkt umhverfi því þau hafi sjaldnast burði til að borga fyrir sérfræðiþekkingu.

Sjávarklasinn leiðir saman aðila og aðstoðar við stofnun nýrra fyrirtækja. Oft koma þangað millistór fyrirtæki með góðar hugmyndir og vilja setja þær í rétt uppvaxtarumhverfi. Þá getur Sjávarklasinn komið inn og leitt hugmyndina áfram. „Hér í húsinu er mikil reynsla og þekking sem auðveldar okkur að tengja fyrirtæki við fjárfesta og leggja til ómetanlega sérfræðikunnáttu og tengslanet. Á móti eignast Sjávarklasinn oft hlut í hinum nýstofnuðu fyrirtækjum og ber því hagsmuni þeirra fyrir brjósti. Við höfum svo alltaf möguleikann á því að selja eignarhlutinn þegar fyrirtækin hafa náð að vaxa og dafna.“

Hlutverk hönnunar

Þór segir sorglegt hversu víða séu þröskuldar milli hönnuða og atvinnulífsins. „Það tók mig til dæmis mörg ár að átta mig á því hversu mikilvægt er að hafa hönnuði með á frumstigum allrar þróunar og í ákvarðanatöku fyrirtækja. Fyrirtækjum er þetta nauðsynlegt eigi þau að ná langt. Það sem vantar hjá mörgum fyrirtækjum er að byggja upp langvarandi samband við hönnuði en það krefst þess að gamla hugsunarhættinum sé breytt. Það þýðir ekkert að hringja bara í hönnuð þegar kemur að því að gera auglýsingu fyrir næstu jól. Hugsunin um langvarandi og náið samband við hönnuði þarf að hríslast alveg niður í DNA fyrirtækisins…

Lestu meira í nýjasta tölublaði HA, þú getur gerst áskrifandi hér.

sjavarklasinn_02

 

Skildu eftir svar