Landslagsarkitektúr
Leave a comment

Útivist á Ísaldareyju

Deiliskipulag Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur

Ljósmynd / Photo - Ólafur Már Sigurðsson

Hvernig skipuleggur maður útvistarvæði í miðri borg með viðkvæmri náttúru og sögulegum minjum allt frá ísöld?
HA ræðir við Yngva Þór Loftsson og Þráinn Hauksson landslagsarkitekta.


Umsjón: Arnar Fells / Ljósmyndir: Ólafur Már Sigurðsson

Ljósmynd / photo - Ólafur Már Sigurðsson

Öskjuhlíð er eitt af stærstu útivistarsvæðum Reykjavíkur. Hún hefur þá sérstöðu að vera áberandi kennileiti sem sést víða að á höfuðborgarsvæðinu enda rís hún 61 metra yfir sjávarmál og á toppi hennar trónir Perlan líkt og kóróna. Lengi vel var Öskjuhlíðin einangruð frá öðrum útivistarsvæðum en með tilkomu göngu og hjólastíga hefur opnast vistvæn samgönguæð um svæðið. Nú iðar svæðið af lífi; Ferðamenn flykkjast í Perluna til njóta útsýnisins yfir borgina, nemendur í Háskóla Reykjavíkur fara daglega um svæðið og njóta nærveru við skóglendið, Ylströndin í Nautólfsvík laðar að sér sólþyrsta borgarbúa á sumrin og nú bíða ásatrúarmenn um allan heim eftir nýju hofi sem rís í suðurenda Öskjuhlíðar. En hvernig skipuleggur maður útvistarvæði í miðri borg með viðkvæmri náttúru og sögulegum minjum allt frá ísöld?

Skipuleggur hálendið og útivistarsvæði

Yngvi Þór Loftsson landslagsarkitekt hjá Landmótun vann deiliskipulag Öskjuhlíðarsvæðisins fyrir borgarskipulagið 1998 en hann hefur komið víða við í skipulagningu á hálendi Íslands og fjölmörgum útivistarsvæðum. Sú aðferð sem beitt var í vinnu við deiliskipulag Öskjuhlíðar byggir á landslagsgreiningu út frá eðlisrænum þáttum og réði þar mestu hversu góður náttúrufarslegur grunnur var til staðar. Náttúrufræðistofnun Íslands hafði unnið nákvæma úttekt á gróðurfari og fuglalífi í Öskjuhlíð. Einnig voru til gögn um sögu og stríðsminjar á svæðinu, sem unnin voru af Árbæjarsafni. Þessi grunnur skapaði kjörið tækifæri til þess að meta landkosti Öskjuhlíðarsvæðisins.

Fingraför fortíðar

„Náttúran og sagan eru grunnþættir landslagsgreiningar og í Öskjuhlíð er að finna fjölbreytt jarðsöguleg ummerki frá seinni hluta ísaldar,“ segir Yngvi og útskýrir að fyrir um ellefu þúsund árum var sjávarstaðan mun hærri en nú og þá var Öskjuhlíðin eyja. Menjar um þann tíma eru til dæmis þveginn jökulruðningur og lábarðir hnullungar sem liggja sem kragi umhverfis hlíðina í 43 metra hæð yfir sjó. Við Fossvog eru Fossvogsbakkarnir sem eru setlög frá ísaldarlokum. Í þeim má finna steingerðar skeljar og kuðunga sem gefa vísbendingu um að hitastig sjávar hafi verið svipað og nú.

 Í Öskjuhlíð má einnig finna aðrar sögulegar minjar af margvíslegu tagi. Elstu minjarnar tengjast búskap, til dæmis Víkursel sem var sel frá höfuðbólinu Reykjavík sem þá var nefnt Vík. Þar höfðu Reykjavíkurbændur nytjar, bæði skóg og selstöðu, og enn sjást rústir af stekkjum og fjárbyrgi. Aðrar minjar eru landamerkjasteinn, þjóðleið, mógrafir og fleira. Stríðsminjar í borgarlandinu hafa ennfremur fyrst og fremst varðveist í Öskjuhlíð. Þeirra á meðal má nefna steypt skotbyrgi, víggrafir úr torfi og grjóti, loftvarnarbyrgi og varnarveggi.

Öskjuhlíð is a hill in the centre of Reykjavík, a true gem and a popular outdoor area. . It rises aboout 61 metres above sea level. During the Second World War the Brittish and the United States Army occupation forces built various shelters, saps and barracks on the hill.

Lofvarnarbyrgi í Öskjuhlíð.

Yngvi útskýrir að Öskjuhlíðin hafi verið töluvert röskuð eftir mannvirkjagerð á vegum setuliðsins í síðari heimstyrjöldinni. Eftir stírðslok hófust tilraunir með uppgræðslu og er nú samfelldur skógur í vestur- og suðurhlíð hennar. Í gróðurgreiningu Náttúrufræðistofnunar eru nú skráðar um 135 tegundir háplantna, sem er um þriðjungur íslensku flórunnar. Fuglalíf er einnig fjölbreytt í hlíðinni en þar hafa sést um 84 tegundir fugla og þar af eru tíu árvissir varpfuglar.

„Markmið deiliskipulagsins var meðal annars að vernda náttúru- og söguminjar og gera Öskjuhlíðina aðgengilegri til útivistar með því að bæta við stígum og tengja þá við aðliggjandi útivistarsvæði og byggð. Ennfremur að auka fjölbreytileika í útivistarstarfsemi árið um kring og endurvekja baðströnd og bæta aðstöðu fyrir siglingar í Nauthólsvík.“ segir Yngvi.

Öskjuhlíð is a hill in the centre of Reykjavík, a true gem and a popular outdoor area. . It rises aboout 61 metres above sea level. During the Second World War the Brittish and the United States Army occupation forces built various shelters, saps and barracks on the hill.

Eldsneytis gryfjur úr seinni heimsstyrjöldinni.

Flokkun eftir útivistarþoli

Við gerð skipulagsins var landinu í Öskjuhlíð skipt upp og flokkað í fjórar landslagsheildir: hábungu, hlíðar, undirlendi og strandlengju. Með orðinu landslagsheildir er átt við greiningu lands á þann hátt að einsleit landsvæði eru afmörkuð út frá sameiginlegum einkennum í náttúrufari, landslagi og landnotkun. Með þessu móti hafi grundvöllur verið lagður að ákveðnum skipulagseiningum sem auðveldar afmörkun svæða og ákvörðun um landnotkun. Samkvæmt meginhugmynd skipulagsins voru deilisvæðin flokkuð með hliðsjón af náttúrufarslegum og manngerðum forsendum eftir útivistarþoli en með síðastnefnda hugtakinu er átt við hversu mikla starfsemi megi bjóða upp á án þess að spjöll hljótist af.

utivistarthol0001

Uppdráttur frá Landmótum sýnir hvernig Öskjuhlíð er skipt upp og flokkað í fjórar landslagsheildir. Grátt: Byggingasvæði. Ljósgrænt: Almenn byggingasvæði. Grænt: Verndarsvæði. Röndótt: Byggingar / vernd.

Verndarsvæði

Skilgreind voru sérstök verndarsvæði sem ætlað er að haldi náttúrulegu yfirbragði. Þau eru viðkvæm fyrir öllu raski og því þurfa framkvæmdir að miðast við það. Stígar sem liggja um þetta land eiga fyrst og fremst að vera malarstígar sem vandlega er komið fyrir í umhverfinu. Innan verndarsvæðanna eru Fossvogsbakkar, sem eru friðlýstir samkvæmt náttúruverndarlögum vegna setlaga sem mynduðust í lok ísaldar, Háuklettar og Undirhlíðar, þar sem gleggst má greina efstu fjörumörk frá ísaldarlokum og flestar söguminjarnar, auk Leynimýrar með sitt fjölbreytta fuglalíf og gróðurfar.

Almenn útivistarsvæði

Þau svæði sem skilgreind voru sem almenn útivistarsvæði eru ekki eins viðkvæm og önnur og þar má koma fyrir búnaði til allrar almennrar útivistarstarfsemi án þess að spilla landinu. Á þessum svæðum eru leikvellir, íþróttavellir, trjáræktarsvæði og malbikaðir stígar. Þeim er ætlað að skilja á milli verndarsvæða og byggingarsvæða og tengja aðliggjandi útivistar- og íbúðarsvæði. Almennu útivistarsvæðin eru á hábungunni, við norður- og suðurhlíðar, hlíðarfótinn og á strandstöllunum.

Byggingarsvæði

Einnig voru skilgreind byggingarsvæði, sem voru þegar byggð, aðgengileg fyrir bílaumferð og helst ekki í beinum tengslum við verndarsvæðin. Á þeim er hægt að bjóða upp á margvíslega útivistarstarfsemi þó að það hafi í för með sér rask á landi. Þar sem mannvirki eru á slíkum svæðum er jafnframt aðkoma að svæðinu, bílastæði og þungamiðja þeirrar útivistarstarfsemi sem fram fer á Öskjuhlíðarsvæðinu. Þessi svæði eru umhverfi Perlunnar, Sólland við Leynimýri, Nauthólsvíkursvæðið og umhverfi gömlu Keiluhallarinnar.

Byggingar og vernd

Byggingar- og verndarsvæði eru svæði þar sem eru mikilvægar náttúru- og söguminjar sem taka þarf tillit til þegar uppbygging á sér stað. Þetta eru grjótnámurnar við Keiluhöllina og Nauthólsvíkursvæðið.

greinargerd4

Öskjuhlíð / Nauthólsvík – Meginhugmynd deiliskipulags.

Yngvi segir greininguna hafa komið að góðum notum við deiliskipulagsbreytingar og verið höfð til hliðsjónar við gerð aðalskipulags Reykjavíkur og annarra áætlana, til dæmis vegna hverfisverndar á fornum fjörumörkum og minjum í vesturhlíðunum og friðlýsingar á Fossvogsbökkum. „Það hefur sýnt sig að slík greining hjálpar mikið til við umfjöllun og kynningu á deiluskipulagstillögum þar sem dregin eru fram sérkenni svæðisins og tillögurnar þannig undirbyggðar. Í fyrri deiliskipulagstillögu var gert ráð fyrir leið fyrir almenningsvagna eða lestarspor meðfram suður- og vesturhlíðinni en því hefur nú verið breytt í hjólastíg og og göngustíg“ segir Yngvi að lokum.

Samkeppni um umhverfi Öskjuhlíðar

Haustið 2013 stóð Reykjavíkurborg fyrir hugmyndasamkeppni meðal fagaðila um nýtingu Öskjuhlíðarsvæðisins. Forsendur samkeppninnar voru byggðar á greiningaraðferðum deiliskipulagsins og hugmyndirnar áttu að snúa að varðveislu og uppbyggingu og hafa það að markmiði að bæta svæðið. Teiknistofan Landslag bar þar sigur úr býtum en stofan byggir á gömlum grunni og hefur verið leiðandi á sviði landslagsarkitekta síðustu áratugi.

„Meginhugmynd vinningstillögunnar byggir annars vegar á geislum sem dregnir eru út í umhverfið frá miðpunkti Perlunnar og hins vegar á nokkurs konar perlufesti, greiðfærri og nánast láréttri hringleið sem þræðir saman allt það áhugaverða og fjölbreytta sem Öskjuhlíðin hefur upp á að bjóða,“ segir Þráinn Hauksson hjá Landslagi. Geislunum er ætlað að skilgreina tengingu svæðisins við umhverfi sitt og auðvelda yfirsýn; í raun að lýsa leiðina um Öskjuhlíð. Sérstakir áherslustaðir eru á stígamótum sem myndast þar sem geislarnir þvera perlufestina annars vegar og stofnstíginn vestan Öskjuhlíðar hins vegar.

Mynd : Landslag arkitektar

Mynd : Landslags arkitektar

greinargerd3

 Vinstri: Geislar út í umhverfið tengja saman mikilvæga staði.                                                                          Hægri: Perlufestin þræðir saman áhugaverða staði í Öskjuhlíðinni.

Þráinn segir mikilvægt að útivistarsvæðið í Öskjuhlíð muni áfram einkennast af þeim gæðum sem felast í staðháttum. Söguminjar verða verndaðar og þeim gert hærra undir höfði með merkingum og fróðleiksskiltum. Með markvissu stígakerfi verður hægt að bjóða upp á betri og fjölbreyttari nýtingarmöguleika á svæðinu. Lögð er áhersla á að opna engið vestan Perlunar haldi sér sem slíkt en það byggir að öllum líkindum á elsta ræktaða túninu í Reykjavík. Tankagryfjurnar má nýta og þróa áfram sem klifur- og ofurhugasvæði og skógurinn verður vettvangur fjallahjóla á afmörkuðum brautum. Einnig munu skógarstígarnir halda sér en þeir bjóða upp á óendanlega möguleika á gönguleiðum um skóginn.

Spurður út í það hvort framkvæmd muni hefjast á næstunni sagðist Þráinn óviss um tíma- eða aðgerðarplan Reykjavíkurborgar þegar kemur að Öskjuhlíðinni. „Samkeppnin var hugmyndakeppni og því engu lofað um framhaldið. Í tillögunni felast þó atriði sem myndu bæta heilmiklu við aðstöðu til útivistar og upplifunar og jafnvel verða aðdráttarafl í sjálfu sér.“

oskjhlidnr_MINJAR_BALDUR

Mynd – Landslags arkitektar.

 

Skildu eftir svar