Upplifunar- & sýningarhönnun, Viðtöl
Leave a comment

Upplifunar- og sýningarhönnun víða um heim

Gagarín

Á undanförnum árum hefur fyrirtækið Gagarín haslað sér völl í hönnun á sýningarupplifun en fyrirtækið starfar í auknum mæli fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja koma upplýsingum á framfæri og skapa áhugaverða upplifun fyrir notendur. Dæmi um slík verkefni eru Eldheimasýningin í Vestmannaeyjum og Mannréttindasafnið í Kanada, tvö gjörólík verkefni sem eiga þó sameiginlegt að unnið er með margmiðlun og gagnvirkni til þess að stuðla að þátttöku gesta og dýpka skilning þeirra. Okkur langaði að skyggnast inn í hugarheim Gagarín og kíktum því í heimsókn til þeirra út á Granda og lögðum nokkrar spurningar fyrir verkefnastjórann, Ástu Olgu Magnúsdóttur.


Höfundur: María Kristín Jónsdóttir / Ljósmyndir Gagarín

HA: Þið notið nýstárlegar og oft óhefðbundnar leiðir til að fá áhorfandann til að taka þátt í sýningunni og verða hluta af henni. Hver er lykillinn að góðri sýningarhönnun og hvernig nýtið þið sérþekkingu ykkar til að ná fram þeim hughrifum sem sóst er eftir?

Ásta: Góður söguþráður er mikilvægur lykill að góðri upplifun af sýningu en sérhæfing okkar er að nota gagnvirkni og margmiðlun til þess að gera upplifunina enn dýpri og eftirminnilegri. Með gagnvirkni og margmiðlun gerum við sýningar að vettvangi fyrir þátttöku og leik í heimi vísinda, sagnfræði, menningar eða lista. Við leitumst við að gera sýningaratriðin aðlaðandi og aðgengileg í notkun en aðalmarkmiðið er að bjóða upp á eins djúpa og minnisstæða upplifun og mögulegt er.

Við hönnun á gagnvirkni má draga mikinn lærdóm af iðn- og vöruhönnun, arkitektúr og vitsmunavísindum en mikilvægast er að skoða atriðin út frá manneskjunni og hvernig hún upplifir sýningaratriðið. Rýmisupplifun, áþreifanleiki og möguleikar á samskiptum eru atriði sem við teljum geta gefið sýningaratriðunum mikið og veitt gestum þá upplifun sem sóst er eftir hverju sinni.

Við leitumst við að nýta okkur þá staðreynd að manninum er eðlislægt að hreyfa hluti og leika sér. Þegar viðmótið er áþreifanlegt geta gestir upplifað söguna með einföldum hætti og athyglin helst á söguþræðinum eða upplifuninni sjálfri. Á Eldheimasýningunni í Vestmannaeyjum unnum við til dæmis með sand og skóflur. Þegar mokað er í sandinum birtast myndir af húsum sem fóru undir ösku og hraun í Heimaeyjargosinu árið 1973. Sandurinn er léttur og sveigjanlegur en í öðru atriði á sömu sýningu vinnum við aftur á móti með þyngd. Tímahjólið, sem fjallar um hraunrennsli, er stórt hringlaga borð með gjörð í kringum sem hægt er að snúa. Á borðplötunni er þrívíddarkort af Vestmannaeyjum sem breytist þegar gestir snúa þungri gjörðinni.

Hringlaga formið og staðsetning borðsins í rýminu gerir það að verkum að hægt er að standa hvar sem er í kringum það. Þegar borðinu er snúið fer atburðarásin í gang, þrívíddarmyndin hreyfist, drunur heyrast í takt við snúninginn og í ljós kemur hvernig landfræðileg lögun Vestmannaeyja breytist eftir því sem líður á gosið. Gjörðin er í raun „video scrubber“ en gesturinn upplifir sig sem þátttakanda í framvindunni með því að snúa þungu hjólinu og hreyfa þannig við jarðskorpunni. Fólk á það til að safnast saman í kringumborðið, hjálpast að við að snúa og ræða einstaka atburði…

Lestu allt viðtalið við Ástu í fyrsta tímariti HA

15239923503_7e4db547d0_o (1)

Skildu eftir svar