Vöru- & iðnhönnun
Leave a comment

Þeir hæfustu lifa af

Laufforks

Hjólamenning Íslendinga hefur tekið mikinn þroskakipp á síðustu árum. Þjóðin sem áður gerði grín að hjólandi ferðamönnum í láréttri rigningunni er nú smám saman að uppgötva hjólið.


Höfundur: Arnar Fells / Ljósmyndir: Lauf Forks og Arnar Fells

Hjólreiðar og viðburðir þeim tengdir njóta vaxandi vinsælda og margir hjólreiðamenn hjóla nú allt árið um kring. Óvíst er hvað veldur þessum aukna hjólaáhuga þjóðarinnar en ljóst er að bættar hjólreiðasamgöngur og lýðheilsuátak stjórnvalda hefur haft sitt að segja. Sennilega hefur þó bakterían að mestu borist með íslenskum námsmönnum sem snúa aftur heim frá höfuðvígum reiðhjólsins, Danmörku og Hollandi.

Lauf Forks er íslenskt fyrirtæki sem spratt upp úr þessari hjólabyltingu. Á þremur árum hefur því tekist að þróa og markaðssetja byltingarkenndan hjólagaffal sem nú er notaður af atvinnufólki í hjólreiðum um allan heim. Gaffallinn er hannaður fyrir svokölluð „hardtail“ fjallahjól sem hafa dempara að framan en ekki aftan. Hann vekur ekki aðeins athygli fyrir framandi útlit heldur er hann einnig viðhaldslaus og töluvert léttari en aðrir demparagafflar. Á skrifstofu Lauf Forks vinna fjórir ungir menn, umkringdir stöflum af kössum og hjólastellum. Piltarnir eru niðursokknir í vinnu sína en andrúmsloftið á skrifstofunni er afslappað. Þeir taka sér pásu til að segja okkur frá sögu fyrirtækisins.

Reykjavik_small

Úr gervifótum yfir í hjólagaffla

Ævintýrið byrjaði á dimmum desemberdegi árið 2010 þegar tveir vinir, Benedikt Skúlason verkfræðingur og Guðberg Björnsson iðnhönnuður, sátu saman yfir bjór eftir kaldan og erfiðan hjólatúr. Benedikt vann þá hjá Össuri ehf. við að þróa gervifætur. Þar kynntist hann eiginleikum koltrefja og hugmyndin um gaffalinn fór að taka á sig mynd. Þegar Benedikt viðraði hugmyndina við vin sinn iðnhönnuðinn varð ekki aftur snúið. Þeir tóku höndum saman og byrjuðu að þróa hugmyndina og síðan þá hafa félagarnir smíðað margar prótótýpur. Á vegg í fundarherbergi Lauf Forks hangir fjöldi gaffla sem sýna þróunarsögu gaffalsins frá upphafi til dagsins í dag. Fyrsti gaffallinn var átta kílóa ferlíki en sá nýjasti er léttur sem lauf, eða um 980 grömm. Sá sem virðir gafflana fyrir sér getur ekki annað en hugsað til þróunarkenningar Darwins. Það er auðséð að þeir hæfustu lifa af. Fyrirtækið einsetti sér að ná gafflinum undir eitt kíló án þess að fórna gæðum og öryggi. Gæði og styrkur skipta mestu máli í framleiðslunni því það væri óafturkræfur skaði fyrir fyrirtækið ef gaffall brotnaði í alþjóðlegri keppni og atvinnumaður steyptist á andlitið. Til að tryggja að gaffallinn þyldi eld og brennistein var hann því sendur í þolraunapróf hjá alþjóðlegu gæðafyrirtæki. Hann stóðst prófið með glæsibrag og í umsögninni var talað um framúrskarandi fjöðrunareiginleika hans og styrk…

Lestu meira um Lauf Forks ævintýrið í nýjasta tímariti HA.

Ljósmynd : Arnar Fells

Ljósmynd : Arnar Fells

Skildu eftir svar